Í veisluna

Í Reykjavík Kabarett eru alls konar listamenn sem taka að sér skemmtanir á ýmsum viðburðum og er sérstaklega vinsælt að fá okkur í þemapartý þar sem glamúrinn er í fyrirrúmi. Atriðin okkar eru sjónræn svo við hentum mjög vel alþjóðlegum gestahópi. Þar að auki eigum við auðvelt með að laga okkur að þema árshátíðarinnar hvað varðar atriði, búninga og tónlistarval. Við hvetjum fólk til að hafa beint samband við okkur skemmtikraftana - og nánar má lesa um okkur hér að neðan.

Drag-Undrið Gógó Starr er vinsælasti dragskemmtikraftur landsins. Gógó getur jafnt komið með drag-skemmtiatriði eða boylesque þar sem kynþokkinn er í fyrirrúmi - eða slegið upp í drag pub quiz sem blandar saman pub quiz og partýleikjum. Gógó er einnig frábær plötusnúður og einnig hefur verið vinsælt að bóka dragdrottninguna til að hvetja fólk í "photo-booth" og kenna þeim að pósa í alvöru. 

GÓGÓ STARR 

Lárus Blöndal, einnig þekktur sem Lalli töframaður, er einstakur skemmtikraftur sem blandar saman uppistandi, töfrabrögðum, sirkus, side-show og jú, hann getur líka spilað á gítar! Hann er fjölhæfasti skemmtikraftur kabarettsins og virkar jafnt í fullorðinsveislum og fermingum, enda meistari í að lesa salinn. Nánari upplýsingar um hann og bókunarvalmöguleika má finna ef smellt er á rauða hnappinn hér fyrir neðan. 

LALLI

TÖFRAMAÐUR

Kvartettinn Barbari hefur alltaf slegið rækilega í gegn þegar við höfum fengið þá sem gesti. Mælum með þessum söng- og grínfuglum fyrir alls konar veislur.

BARBARI

Margrét Maack og Lalli töframaður eru gjarnan bókuð saman annars vegar með hálftíma kabarettsýningu eða sem veislustjórateymi með heildarskemmtilausn.

Töfrar, hnífakast, blöðrur, magadans, danskennsla og almennt sprell. Þau eiga auðvelt með að laga skemmtunina að veislunni, umverfinu og þemanu og sérsníða prógrammið að veislunni þinni. Best er að bóka þau í gegnum Margréti.

MARGRÉT MAACK

OG LALLI TÖFRAMAÐUR

Lalli töframaður og Maísól eru kabarettdúó sem jafnt getur boðið upp á hálftíma kabarettprógramm eða séð um veislustjórn og skemmtiatriði. Töfrabrögð, uppistand og háklassagrínatriði hér á ferð. Ef þú leitar að heildrænni skemmtilausn er þessi dúett svarið. Best er að bóka dúettinn í gegnum Lárus.

LALLI OG MAÍSÓL

Ungfrú Hringaná er fyrst og fremst húllahringjasnillingur, en getur einnig sýnt loftfimleika, tekið á móti gestum árshátíðarinnar með eldsýningu (sjá mynd) eða kennt hópnum þínum hinar ýmsu sirkuslistir. Best er að hafa samband við hana í gegnum Facebook. Hliðarsjálf hennar, Húlladúllan, tekur að sér ýmis konar barnaskemmtanir,

barnaafmæli og sirkuskennslu. Vinsamlega athugið að hún er nokkuð þéttbókuð fram í tímann, enda ein af fáum eldlistamönnum landsins og þar að auki með annan skemmtikraftsfótinn fyrir norðan.

UNGFRÚ HRINGANÁ

Margrét Maack er vinsæll skemmtikraftur, hvort sem það snýst um að veislustýra, koma með skemmtiatriði, plötusnúða, kenna fólki að twerka eða eitthvað allt annað. Vinsælasta atriðið hennar um þessar mundir er blöðruatriði (sjá mynd) með sverðgleypingum og hnífakasti og er hún vinsælasti gæsapartýdanskennari landsins. Margrét er yfirleitt bókuð 4-7 mánuði fram í tímann. Nánar má lesa um hana og allt sem hún kann á heimasíðunni hennar - margretmaack.com - og þar er einnig að finna leiðir til að hafa samband. 

MARGRÉT MAACK 

Kabarettan og harmónikku-snillingurinn Margrét Arnar er frábær til að setja kabarettstemminguna í fordrykkinn! Stundum er hún bókuð sem skeggjaða konan sem spilar á harmónikku eða til að spila seiðandi tóna í franskri kaffihúsatemmingu. Að hausti er vinsælast að fá hana til að koma í dirndl-búningnum á októberfest. Margrét er einnig vel tengd í tónlistarsenunni og hefur komið fram með ýmsum hljómsveitum. Ef þú vilt skemmtilega tónlistarlausn - hafðu samband við Margréti.

MARGRÉT ARNAR 

Tvær drottningar: Kabarettdrottningin Maísól og dragdrottningin Gógó Starr bjóða upp á frá hálftima kabarettprógrammi yfir í veislustjórn yfir öllu borðhaldinu. Drag, töfrar, grín, burlesque og ýmislegt fleira í drepfyndnum og orkumiklum skemmtipakka.

GÓGÓ OG MAÍSÓL

Sirkuslistamaðurinn Jóakim á dásamlegt 15 mínútna atriði þar sem hann fer inn í risablöðru. Jóakim er heillandi og drepfyndinn og mun ná öllu boðinu á sitt band. Atriðið nýtur sín best á sviði og það þarf pláss. Ef þú vilt eftirminnilegt atriði þá hefurðu samband við Jóakim.

JÓAKIM

Súludansvíkingurinn Daniel Polekington er eitt vinsælasta gæsapartýsskemmtiatriði landsins. Hann sýnir þokkafullan of drepfyndinn súludans og kennir svo gæsinni og partýinu nokkur trikk. Súlan þarf í það minnsta 3,1 metra lofthæð. Einu sinni var hann bókaður þar sem lofthæð var lægri en þá fór hann bara með súluna út á pall og notaði ljósin á bílnum sínum sem lýsingu, enda hugsar hann í lausnum. Gæsapartý, kvennakvöld... já og Þorrablót auðvitað!

POLEKINGTON

María Callista er klassískur burlesque-dansari. Dýrðarljómi liðinnar tíðar, húmor og þokki einkenna þessa dívu sem er vinsæl í partýum sem vitna til dæmis í 1920, Gatsby eða Charleston. Hún á fjöldann allan af atriðum sem kitla og skemmta.

MARÍA CALLISTA

Maísól er frábær skemmtikraftur, bæði sem veislustjóri og sem einstakt skemmtiatriði. Hennar atriði eru fyndin og sniðug og blanda saman sjónrænni skemmtun og gríni. Hvort sem þú vilt sjá drepfyndin töfrabrögð eða júróvisjónatriði með ótrúlega mörgum sjálfboðaliðum og vindvélum, þá er Maísól þín kona. 

MAÍSÓL

Jón Sigurður Gunnarsson, Nonni, er einn fremsti sirkuslistamaður landsins. Hann hefur gert garðinn frægan með Sirkus Íslands og Circus Aetoarea í Nýja Sjálandi en hann ferðaðist með þeim í hálft ár. Með þeim setti hann saman þetta  stórkostlega og stórhættulega handstöðuaatriði sem fær fólk til að standa á öndinni. Nonni er eini handstöðulistamaður landsins. Atriðið þarf 3 metra lofthæð.

NONNI

(HAND SOLO)

Skemmtikrafturinn Margrét Maack og dragstjarnan Gógó Starr erumvinsæll skemmtipakki í veislum. Þau henta einstaklega vel í veislur þar sem ekki allir tala íslensku þar sem atriðin eru sjónræn. Drag, burlesque, og henta í alls konar þemapartý og geta lagað atriðin að ykkar veislu. Þau bjóða upp á allt frá hálftíma skemmtun og yfir í veislustjórn sem spannar borðhald og geta einnig tekið að sér að plötusnúða í partýinu. Vinsamlega athugið að þau skemmta ekki fordómafullu fólki eða dónalegu.

GÓGÓ STARR OG MARGRÉT MAACK 

Stuðvinkonur Íslands geta boðið upp á allt frá hálftíma skemmtiprógrammi og upp í heilt kvöld af veislustjórn og skemmtiatriðum. Magadans, sirkusbrögð, sjálfboðaliðaatriði með vindvélum, töfrabrögð, Hjössa hin sterka.. svo fátt eitt sé nefnt. Stöllurnar geta einnig DJað og stjórnað karaoke, og blandað því saman ef stemmingin er þannig. Skemmtilegt í skemmtilegum partýum, agalegt í leiðinlegum partýum. Þær koma með sínar eigin vindvélar.

MARGRÉT OG MAÍSÓL 

Sirkus, töfrabrögð, fimleikar og fíflagangur. Nonni og Sindri geta bæði komið sem stórkostlegt akróbatík-skemmtiatriði en einnig séð um veislustjórn þar sem þeir blanda öllu sem þeir kunna inn í prógrammið. Ljúfir menn sem heilla alla upp úr skónum.

NONNI OG SINDRI 

Dragkóngurinn Skarphéðinn frá Fljótstungu er gríðarlega vinsæll í alls kyns partýum - helst þó á kvennakvöldum og þorrablótum. Skarphéðinn er sjarmerandi, skemmtilegur og fyndinn og kemur öllum í gott skap. Best er að bóka Skarphéðinn í gegnum aðdáendasíðu hans á facebook eða í gegnum tölvupóst til Agnesar umboðskonu hans.

SKARPHÉÐINN 

FRÁ FLJÓTSTUNGU